Sagt upp störfum í London?

Julen Lopetegui á hliðarlínunni í tapleiknum gegn Manchester City á …
Julen Lopetegui á hliðarlínunni í tapleiknum gegn Manchester City á laugardaginn. AFP/Oli Scarff

Spánverjanum Julen Lopetegui hefur verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra West Ham, samkvæmt nokkrum enskum fjölmiðlum.

Talksport segir að stjórn West Ham hafi ákveðið fyrr í dag að segja Lopetegui upp og allt bendi til þess að Graham Potter verði ráðinn í hans stað.

West Ham hefur gengið illa á yfirstandandi tímabili og er í fjórtánda sæti úrvalsdeildarinnar. Liðið fékk skelli gegn Liverpool og Manchester City um jólin og það er sagt hafa  gert útslagið.

Lopetegui var ráðinn til West Ham í maí 2024 og stýrði því liðinu aðeins í ríflega sjö mánuði. Áður var hann stjóri Wolves, Sevilla, Real Madrid og Porto, og var um skeið þjálfari spænska karlalandsliðsins.

Graham Potter hefur verið án starfs síðan í apríl 2023 þegar honum var sagt upp hjá Chelsea en hann var áður í þrjú ár með Brighton í úrvalsdeildinni.

Uppfært:
Aðrir enskir miðlar, m.a. Sky Sports, segja að endanleg ákvörðun um brottreksturinn hafi ekki verið tekin en ljóst sé að þolinmæði West Ham sé á þrotum og Potter sé mjög líklegur eftirmaður Spánverjans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert