Nottingham Forest hélt áfram sigurgöngu sinni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld og lagði Wolves að velli, 3:0, í Wolverhampton í lokaleik 20. umferðarinnar.
Forest vann þar með sinn sjötta leik í röð og styrkti stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar. Liverpool er með 46 stig á toppnum en síðan koma Arsenal og Forest með 40 stig og þar á eftir er Chelsea með 36 stig.
Wolves er áfram í sautjánda sætinu með 16 stig, jafnmörg og Ipswich sem er í átjánda sæti og fallsæti deildarinnar.
Forest náði forystunni strax á 6. mínútu þegar Morgan Gibbs-White brunaði upp völlinn í skyndisókn, sendi á Anthony Elanga, fékk boltann aftur og skoraði með viðstöðulausu skoti.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom önnur snögg sókn hjá Forest. Löng sending markvarðar fram á vinstri kantinn þar sem Callum Hudson-Odoi brunaði upp að endamörkum og renndi boltanum út á Chris Wood sem skoraði sitt 12. mark í deildinni í vetur. Staðan var því 2:0 í hálfleik, Forest í hag.
Úlfarnir náðu ekki að laga stöðuna en undir lok uppbótartíma leiksins skoraði Taiwo Awoniyi þriðja markið eftir skyndisókn Forest, 3:0, eftir sendingu frá James Ward-Prowse.