Svo virðist sem tvö félög í ensku úrvalsdeildinni séu komin í baráttu um knattspyrnustjórann Graham Potter.
Í gær bárust fréttir af því að West Ham myndi að öllum líkindum segja Jolen Lopetegui upp störfum og nú er Sean Dyche talinn vera orðinn mjög valtur í sessi hjá Everton sem hefur aðeins unnið þrjá af nítján leikjum sínum í deildinni í vetur.
Sky Sports segir að Graham Potter sé efstur á óskalista beggja félaganna og hann hafi þegar rætt við forráðamenn þeirra beggja að undanförnu.
Potter hafi verið í viðræðum við West Ham í gær og viðbúið sé að til tíðinda dragi á næsta sólarhringnum.
Potter hefur verið án starfs síðan Chelsea sagði honum upp í apríl 2023. Hann hefur hafnað boðum um að taka við Ajax, Leicester, Southampton og AC Milan en Sky Sports segir að hann ætli sér ekki að taka við nýju félagi nema gulltryggt sé að hann fái þolinmæði og tíma til að byggja upp samkvæmt sinni hugmyndafræði. Því hafi honum verið lofað hjá Chelsea sem ekki hafi staðið við það.