Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, segir að umræða um framtíð liðsfélaga síns Trent Alexander-Arnold hafi ekki verið valdur að slakri frammistöðu þess síðarnefnda í jafntefli gegn Manchester United, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudag.
„Nei, þetta er í fínu lagi mín vegna. Trent er með sitt fólk í kringum sig, fjölskyldu sína og við erum líka til staðar fyrir hann,“ hefur breska ríkisútvarpið eftir van Dijk.
Samningar þeirra beggja renna út í sumar og hefur Alexander-Arnold þráfaldlega verið orðaður við Real Madríd. Bauð spænska félagið til að mynda í enska bakvörðinn í upphafi árs.
„Hann vill standa sig eins vel og hægt er eins og við allir. Það er aðalatriðið,“ bætti fyrirliðinn við.