Tottenham fer með forskot á Anfield

Curtis Jones hjá Liverpool og Yves Bissouma úr Tottenham eigast …
Curtis Jones hjá Liverpool og Yves Bissouma úr Tottenham eigast við í kvöld. AFP/Darren Staples

Tottenham og Liverpool mættust í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum í kvöld og lauk leiknum með 1:0-sigri Tottenham.

Leikurinn fór fram á Tottenham Hotspur-vellinum en seinni leikurinn fer fram á Anfield þann 6. febrúar og sigurliðið mætir annað hvort Newcastle eða Arsenal í úrslitaleik keppninnar.

Fyrri hálfleikur byrjaði ekki vel en strax á 9. mínútu fékk Rodrigo Bentancur leikmaður Tottenham slæmt höfuðhögg. Stöðva þurfti leikinn og við tók löng aðhlynning inni á vellinum sem endaði með því að Brendan Johnson kom inn á fyrir Bentancur.

Leikurinn var ansi rólegur framan af og gerðist í raun lítið markvert fyrr en í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Stuart Atwell dómari leiksins bætti 11 mínútum við fyrri hálfleik og þá fóru hjólin að snúast hjá liðunum.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma átti Mohamed Salah skot yfir markið. Stuttu síðar fékk varamaðurinn Brennan Johnson ágætis færi en skot hans endaði í varnarmanni.

Cody Gakpo gerði síðan tvær atlögur að marki Tottenham en fyrra skot hans var varið og það seinna yfir markið.

Staðan í hálfleik var markalaus í tíðindalitlum fyrri hálfleik.

Hvorugt liðið gerði breytingu í hálfleik. Fyrsta færi seinni hálfleiks kom á 56. mínútu þegar Allison Becker markvörður Liverpool gerði skelfileg mistök þegar hann missti boltann þegar hann reyndi að sóla Lucas Bervall. Pedro Porro náði til boltans í opnu marktækifæri en skot hans fór fram hjá. Liverpool-menn voru stálheppnir að lenda ekki undir.

Þremur mínútum seinna var komið að Mohamed Salah þegar hann var með lúmskt skot fyrir utan teig sem Antonin Kinsky markvörður Tottenham þurfti að hafa fyrir að verja.

Á 71. mínútu munaði sáralitlu að varamaðurinn Trent Alexander-Arnold kæmi gestunum frá Liverpool yfir þegar skot hans var varið á marklínu af Radu Dragusin.

Dominic Solanke slapp einn inn fyrir vörn Liverpool á 76. mínútu leiksins og skoraði eftir frábæra sendingu frá Lucas Bergvall en mark hans var dæmt af eftir að varsjáin úrskurðaði að um rangstöðu hafi verið að ræða. 

Tíu mínútum síðar skoraði Tottenham mark sem ekki var hægt að dæma af þegar Dominic Solanke fékk háa sendingu inn í teig, lék á varamanninn Ibrahima Konaté, gaf á Lucas Bergvall sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Tottenham örugglega með föstu skoti. Staðan 1:0 fyrir Tottenham.

Leikmenn Liverpool reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn. Besta tækifærið til þess fékk Darwin Núnez þegar skot hans var varið í horn af Antonin Kinsky sem átti frábæran leik í marki Tottenham.

Lokatölur frá Tottenham Hottspur-vellinum 1:0 fyrir Tottenham. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Tottenham 1:0 Liverpool opna loka
90. mín. Við erum komin á þriðju mínútu uppbótartíma. Það stefnir allt í það að Tottenham fari með 1:0 forskot á Anfield þann 6 febrúar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert