Everton er komið áfram í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í fótbolta eftir sigur á Peterborough úr C-deildinni á heimavelli í kvöld. Urðu lokatölur á Goodison Park 2:0.
Leighton Baines og Séamus Coleman stýrðu Everton-liðinu í kvöld en félagið rak Sean Dyche sem stjóra liðsins fyrr í dag.
Portúgalinn Beto gerði fyrra mark Everton á 42. mínútu og Iliman Ndiaye innsiglaði sigurinn með marki úr víti í uppbótartíma.
Fulham úr úrvalsdeildinni vann öruggan heimasigur á Watford úr B-deildinni, 4:1. Rodrigo Muniz gerði fyrsta markið á 26. mínútu en Rocco Vata jafnaði fyrir Watford á 33. mínútu og var staðan í leikhléi 1:1.
Raúl Jiménez kom Fulham aftur yfir með marki úr víti á 49. mínútu og Joachim Andersen gerði þriðja markið á 65. mínútu. Tinothy Castagne gulltryggði þriggja marka sigur með fjórða markinu á 85. mínútu.
Þá vann Cardiff óvæntan útisigur á Sheffield United, 1:0. Cian Ashford gerði sigurmark Cardiff á 19. mínútu. Sheffield United er í þriðja sæti B-deildarinnar og Cardiff í 23. og næstneðsta sæti í sömu deild.