Slot: Var erfitt fyrir mig

Arne Slot.
Arne Slot. AFP/Oli Scarff

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að hann horfi öðrum augum á 0:1-tap liðsins fyrir Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni snemma á tímabilinu út frá því hversu vel liðinu hefur gengið á því.

Callum Hudson-Odoi skoraði laglegt sigurmark Forest á Anfield í þeim leik eftir undirbúning Anthony Elanga, en báðir komu þeir inn á sem varamenn.

„Eftir á að hyggja hafa þeir sýnt hversu gott lið þeir eru með. Fyrir þann leik held ég að þeir hafi verið með tvö jafntefli og einn sigur. Ég tel að almennt búumst við ekki við því að Liverpool tapi á heimavelli.

Á því augnabliki hugsaði ég líka um tölfræði Virgils [van Dijks] sem hafði spilað 100 leiki á heimavelli fyrir Liverpool og aðeins tapað tvisvar. Þannig að það var erfitt fyrir mig að tapa þennan dag, eins og þið hafið örugglega tekið eftir,“ sagði Slot á fréttamannafundi í morgun.

Ekki jafn mikið áfall

Forest fær Liverpool í heimsókn í deildinni annað kvöld í toppslag þar sem Liverpool er í efsta sæti með 46 stig og Forest sæti neðar með 40 stig.

„Núna þegar ég lít til baka og sé hvar þeir eru í deildinni eru þessi úrslit ekki jafn mikið áfall og mér fannst þau vera þá. Þeir voru með mjög gott leikplan. Þeir skiptu um vængmenn og settu þá inn á sem varamenn undir lokin og þeir gerðu gæfumuninn.

Ég býst samt við því að vængmennirnir þeirra sem hafa staðið sig svo vel verði í byrjunarliðinu á morgun. Það er nokkuð sem hann [Nuno Espírito Santo knattspyrnustjóri Forest] breytti þá og það gaf mjög góða raun fyrir þá í þeim leik,“ bætti Hollendingurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert