Þurfum frábæra leikmenn á frábæran völl

David Moyes er mættur á Goodison Park.
David Moyes er mættur á Goodison Park. AFP/Ben Stansall

David Moyes sagði á sínum fyrsta fréttamannafundi eftir endurkomuna til Everton sem knattspyrnustjóri að nú þyrfti félagið að fá frábæra leikmenn í sínar raðir.

Everton flytur á nýjan leikvang í Liverpool-borg eftir þetta tímabil eftir að hafa leikið á  Goodison Park frá árinu 1892.

„Nýi völlurinn lítur frábærlega út þannig að nú er komið að því að við fáum frábæra leikmenn til liðs við okkur," sagði Moyes sem áður stýrði liði Everton frá 2002 til 2013.

Hann staðfesti á fundinum að Leighton Baines, sem lék með Everton um árabil, yrði í þjálfarateymi sínu en Baines hefur þjálfað U18 ára lið félagsins síðustu ár. Einnig koma Billy McKinlay og Alan Irvine til félagsins en þeir voru báðir í teymi hans hjá West Ham.

Fyrsta verkefni sitt hjá Everton sagði Moyes að væri að fá liðið til að skora mörk.

„Við verðum að finna leiðir til þess að skora. Við verðum að gera það, hvort sem það er í uppstilltum atriðum eða opnum leik. Margir leikmenn þurfa að koma að því og við setjum meiri pressu á framherjana. Ef það dugar ekki til að knýja fram úrslit þurfum við að  styrkja hópinn," sagði David Moyes.

Fyrsti leikur Everton undir hans stjórn í þrettán ár verður gegn Aston Villa á Goodison Park á miðvikudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert