Frá Chelsea til Bayern München?

Christopher Nkunku.
Christopher Nkunku. AFP/Glyn Kirk

Forráðamenn knattspyrnuliðs Bayern München í Þýskalandi eru í viðræðum við Chelsea um kaup á franska sóknarmanninum Christopher Nkunku.

Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Nkunku, sem er 27 ára gamall, er samningsbundinn Chelsea til sumarsins 2029.

Enska félagið vill fá í kringum 70 milljónir evra fyrir leikmanninn sem gekk til liðs við Chelsea frá RB Leipzig, sumarið 2023 fyrir 55 milljónir evra.

Nkunku hefur aldrei náð sér almennilega á strík í Lundúnum, meðal annars vegna meiðsla, en alls hefur hann leikið 42 leiki fyrir félagið, skorað í þeim 16 mörk og lagt upp önnur fjögur.

Hann sló í gegn með Leipzig, þar sem hann lék frá 2019 til 2023, en þar skoraði hann 74 mörk og lagði upp önnur 54 í 172 leikjum fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert