Sádiarabíska knattspyrnufélagið Al-Hilal hefur endurvakið áhuga sinn á egypska sóknarmanninum Mohamed Salah.
Samningur Salah við Liverpool rennur út í sumar og samkvæmt franska tímaritinu L’Équipe vill Al-Hilal bjóða honum samning.
Hvort félagið geti það veltur hins vegar á því hvort Brasilíumaðurinn Neymar verði áfram hjá Al-Hilal eða fari annað í sumar.
Það kemur til vegna reglna sádiarabísku deildarinnar um fjölda erlendra leikmanna hjá hverju liði auk þess sem Neymar er á himinháum launum og myndi með brottför auka svigrúm til þess að greiða Salah há laun til muna.
Al-Hilal bauð 150 milljónir punda í Salah í ágúst árið 2023 en Liverpool hafnaði því tilboði.
Samkvæmt enska götublaðinu The Sun hyggst Al-Hilal bjóða Salah tveggja ára samning sem myndi færa honum 65 milljónir punda, 11,2 milljarða íslenskra króna, á samningstímanum.
Samningaviðræður Salah og Liverpool hafa engan ávöxt borið og því er allt útlit fyrir að egypski markahrókurinn yfirgefi enska félagið að tímabilinu loknu.