Munnlegt samkomulag í höfn?

Trent Alexander-Arnold.
Trent Alexander-Arnold. AFP/Oli Scarff

Enski knattspyrnumaðurinn Trent Alexander-Arnold er sagður vera búinn að gera munnlegt samkomulag við forráðamenn spænska stórliðsins Real Madrid um að hann muni ganga til liðs við félagið næsta sumar.

Það er spænski miðillinn Marca sem greinir frá þessu en Alexander-Arnold, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Liverpool á Englandi og uppalinn hjá félaginu.

Samningur bakvarðarins rennur út í sumar og hefur hann ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Liverpool, enn sem komið er.

Fer ekki til Spánar í janúar

The Mirror greindi frá því í gær að Real Madrid hefði boðið 20 milljónir punda í bakvörðinn á dögunum en því tilboði var hafnað.

Forráðamenn Real Madrid virðast því vera búnir að sætta sig við það að Alexander-Arnold mun ekki ganga til liðs við félagið í janúar.

Bakvörðurinn hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Liverpool en alls á hann að baki 337 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 21 mark og lagt upp önnur 85 til viðbótar.

Uppfært:
Sky Sports segir að fréttir af samkomulagi Alexander-Arnolds við Real Madrid séu úr lausu lofti gripnar hjá spænskum fjölmiðlum og samkvæmt heimildum hafi ekkert slíkt átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert