35 ára ráðin knattspyrnustjóri Arsenal

Renée Slegers er nýr stjóri Arsenal.
Renée Slegers er nýr stjóri Arsenal. AFP/Justin Tallis

Renée Slegers hefur verið ráðin knattspyrnustjóri kvennaliðs Arsenal og skrifaði hún undir eins og hálfs árs samning við félagið.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Slegers, sem er einungis  35 ára gömul, var ráðin tímabundinn stjóri liðsins í október á síðasta ári þegar Jonas Eidevall sagði starfi sínu lausu en Slegers var ráðin aðstoðarþjálfari Eidevall hjá félaginu í september árið 2023.

Gengi Arsenal undir stjórn Slegers hefur verið mjög gott en liðið hefur unnið tíu leiki og gert eitt jafntefli í öllum keppnum frá því að hún tók við stjórnartaumunum hjá félaginu.

Slegers lék með Willem II, Djurgården og Linköping á leikmannaferlinum og þá lék hún 55 A-landsleiki fyrir Holland á árunum 2009 til 2016. Hún lagði skóna á hilluna vegna þrálátra hnémeiðsla árið 2018.

Arsenal situr sem stendur í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 21 stig, sjö stigum minna en topplið Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert