Haaland skrifaði undir sögulegan samning

Erling Haaland.
Erling Haaland. AFP/Ben Stansall

Norski knattspyrnumaðurinn Erling Haaland hefur skrifað undir nýjan samning við Englandsmeistara Manchester City.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Haaland, sem er 24 ára gamall, skrifaði undir níu og hálfs árs samning í Manchester.

Samningurinn er lengsti núgilandi samningurinn í ensku úrvalsdeildinni en hann gildir út keppnistímabilið 2033-34.

The Athletic greinir frá því að Haaland muni þéna í kringum 850.000 pund á viku hjá City, með föstum launagreiðslum og bónusum, en það samsvarar rúmlega 146 milljónum íslenskra króna á viku.

Haaland gekk til liðs við City frá Borussia Dortmund sumarið 2022 og hefur skorað 111 mörk í 126 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert