Fjórir leikmenn Chelsea gætu misst af leik liðsins gegn Wolves á mánudaginn kemur í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.
Þetta tilkynnti Enzo Maresca, stjóri Chelsea, á blaðamannafundi í dag, en Chelsea er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar með 37 stig, 10 stigum minna en topplið Liverpool.
Þeir Cole Palmer, Enzo Fernandez, Levi Colwill og Romeo Lavia eru allir tæpir vegna meiðsla og gátu ekki tekið þátt í æfingu liðsins í dag.
Palmer er markahæsti leikmaður Chelsea á tímabilinu með 14 mörk í 21 leik í deildinni og þá er Fernandez varafyrirliði liðsins.