Arsenal og Aston Villa sættust á sitt hvort stigið þegar liðin mættust í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London.
Fjörugum leik lauk með 2:2 jafntefli en Aston Villa tókst að vinna upp tveggja marka forskot á útivelli.
Arsenal er í öðru sæti með 43 stig, sex stigum á eftir toppliði Liverpool og þremur stigum á undan Nottingham Forest. Eftir harðsóttan útisigur Liverpool á Brentford í dag er staða Liverpool á toppnum orðin enn vænlegri eftir jafnteflið hjá Arsenal. Aston Villa var í 7. sæti með 36 stig.
Arsenal lék vel í fyrri hálfleik og var 1:0 yfir að honum loknum. Kallað hefur verið eftir því að Leandro Trossard og Gabriel Martinelli skili góðu framlagi hjá Arsenal eftir að Saka meiddist. Þeir gerðu það í dag þótt það hafi ekki dugað til sigurs. Martinelli skoraði fyrra mark Arsenal og eina mark fyrri hálfleiks eftir undirbúning frá Trossard.
Snemma í síðari hálfleik náði Trossard aftur að gefa fyrir frá vinstri og Kai Havertz skoraði af stuttu færi. Arsenal hafði góð tök á leiknum fram að þessu og virtist liðið mjög líklegt til að ná í 3. stig.
En þá tóku leikmenn Aston Villa við sér og minnkuðu muninn á 60. mínútu, aðeins fimm mínútum eftir annað mark Arsenal. Lucas Digne fékk boltann á vinstri kantinum. Fyrirgjöfin var góð eins og við var að búast og Youri Tielemans kastaði sér fram og skallaði neðst í vinstra hornið. Huggulegt mark hjá Belganum.
Mínútu síðar skaut hann í stöngina en jöfnunarmarkið kom á 68. mínútu. Ollie Watkins lék þá lausum hala í vítateignum og skoraði af stuttu færi eftir langa sendinu frá Matty Cash.
Mark var dæmt af Arsenal á 87. mínútu þegar Merino skaut í Havertz og inn. Markið var dæmt af þar sem boltinn mun hafa farið í höndin á Havertz.
Dramatíkin hélt áfram og Martin Ödergaard skaut í stöngina á marki Villa í uppbótartímanum.