Manchester United tók á móti Brighton í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Leikið var á Old Trafford vellinum í Manchester og endaði leikurinn með sigri gestanna frá Brighton, 3:1.
Eftir sigurinn er Brighton í 9. sæti deildarinnar með 34 stig en Manchester United situr í því 13. með 26 stig.
Leikurinn var ekki nema fimm mínútna gamall þegar Brighton var komið yfir með marki frá Yankuba Minteh. Kaoru Mitoma fékk þá sendingu innfyrir vörn heimamanna og renndi hann boltanum fyrir markið á Minteh sem setti boltann í netið framhjá Andre Onana, markverði Manchester United.
Heimamenn jöfnuðu leikinn á 22. mínútu með marki Bruno Fernandes úr vítaspyrnu. Gestirnir misstu þá boltann illa fyrir framan teiginn og Joshua Zirkzee plataði Carlos Baleba inni í vítateig. Baleba braut þá á Hollendingnum og dæmdi frábær dómari leiksins, Peter Bankes, réttilega vítaspyrnu. Fernandes steig á punktinn og sendi Bart Verbruggen, markvörð Brighton, í vitlaust horn.
Gestirnir héldu að þeir hefðu komist yfir á 53. mínútu þegar Joao Pedro fékk boltann inni í vítateig heimamanna eftir klafs í teignum. Pedro setti boltann í markið og fögnuðu gestirnir ákaft. Peter Bankes var þá sendur í skjáinn eftir að VAR dómari leiksins sá brot í teignum og stóð markið því ekki.
Brighton menn létu þetta ekki á sig fá og skoruðu annað mark sitt á 61. mínútu þegar Yankuba Minteh launaði Kaoru Mitoma greiðann frá því fyrr í leiknum. Minteh átti þá frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Mitoma mætti og kom boltanum í netið.
Það var síðan Georginio Rutter sem skoraði þriðja mark Brighton eftir skelfileg mistök hjá Andre Onana. Yasin Ayari átti þá fyrirgjöf frá hægri sem virtist sárasaklaus en á einhvern óskiljanlegan hátt þá missti Onana boltann frá sér þegar hann ætlaði að handsama hann. Boltinn datt fyrir fætur Rutter sem gat ekkert annað gert en rennt boltanum í autt markið. Ótrúleg mistök hjá markverði Manchester United.
Meira var ekki skorað þrátt fyrir langan uppbótartíma og fögnuðu gestirnir frá Brighton sannfærandi sigri á Old Trafford.