„Þetta er bara gult spjald, sem þýðir það að hann hefði átt að fá rautt,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í Vellinum á Símanum Sport á sunnudagskvöld.
Eiður Smári átti þar við Darwin Núnez sem kom inn á sem varamaður og skoraði bæði mörk Liverpool í 2:0-sigri á Brentford í ensku úrvalsdeildinni.
Hann reif sig úr treyjunni eftir fyrra markið og fékk fyrir vikið gult spjald og traðkaði svo á Nathan Collins undir blálokin en fékk ekki annað gult spjald.
Það er bara klárt mál. Við getum verið sammála eða ósammála um hvort menn eigi að fá gult spjald þegar menn rífa sig úr treyjunni þegar þeir skora hugsanlega sigurmark á 93. eða 94. mínútu.
En þetta eru bara reglurnar. Þær eru búnar að standa og gilda í mörg ár. Þannig að það er óskiljanlegt að leikmaður rífi sig úr treyjunni. Það ætlar bara enginn að læra þessa reglu.
En þegar þú ert kominn með gult spjald ekki þá koma þér í þá stöðu að þú fáir hugsanlega rautt. Þú ert búinn að vinna leikinn fyrir liðið þitt og tekur þessa sénsa. Hann slapp í þetta sinn,“ bætti Eiður Smári við.
Umræðuna um ólíkindatólið Núnez má sjá í spilaranum hér að ofan.