Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur fest kaup á brasilíska varnarmanninum Vítor Reis frá Palmeiras. Reis, sem er aðeins 19 ára gamall, er keyptur á 29,6 milljónir punda, jafnvirði 5,1 milljarðs íslenskra króna.
Hann skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning við Englandsmeistarana. Man. City tilkynnti um kaup á öðrum miðverði, Abdukodir Khushanov frá Úsbekistan, í gær.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Reis verið lykilmaður hjá Palmeiras í heimalandinu á tímabilinu þar sem hann spilaði 22 leiki.
Palmeiras vildi gjarna halda Reis eftir að láni frá Man. City út tímabilið en enska félagið vildi ólmt fá hann til liðs við sig þegar í stað og er Reis mættur til Manchester.