Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur óvænt áhuga á Jack Grealish, leikmanni nágrannanna og erkifjendanna í Manchester City.
Enska götublaðið The Sun greinir frá því að Man. United sé eitt fjölda félaga sem hafi áhuga á Grealish sem hefur verið í aukahlutverki hjá Man. City á tímabilinu og aðeins skorað eitt mark í 21 leik í öllum keppnum þrátt fyrir að vera kantmaður og sóknartengiliður.
Færi svo að Grealish skipti á milli Manchester-félaganna yrði það í fyrsta skipti síðan Carlos Tévez fór frá Man. United til Man. City sumarið 2009.
Uppeldisfélag Grealish, Aston Villa, hefur einnig áhuga á að fá hann aftur til liðs við sig og Tottenham Hotspur og Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni eru sömuleiðis áhugasöm ásamt Borussia Dortmund í Þýskalandi og Inter Milanó á Ítalíu.