Brasilíski knattspyrnumaðurinn Murillo, einn besti miðvörður ensku úrvalsdeildarinnar á yfirstandandi tímabili, hefur skrifað undir nýjan samning við spútniklið Nottingham Forest sem gildir til sumarsins 2029.
Murillo hefur staðið sig frábærlega með Forest á tímabilinu er liðið hefur óvænt blandað sér í toppbaráttuna í úrvalsdeildinni.
Því hefur borið á miklum áhuga stórliða á að klófesta hann en Murillo er aðeins 22 ára gamall og hefur myndað frábært miðvarðarteymi með Serbanum Nikola Milenkovic á tímabilinu.
Forest hefur fengið á sig 22 mörk í 22 leikjum í deildinni og hafa aðeins Liverpool og Arsenal fengið á sig færri; 20 og 21.