Nýliðarnir kræktu í Paragvæa

Julio César Enciso hefur verið lánaður til Ipswich.
Julio César Enciso hefur verið lánaður til Ipswich. AFP/Glyn Kirk

Ipswich Town, sem leikur sem nýliði í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á tímabilinu, hefur samið við Brighton & Hove Albion um að fá sóknartengiliðinn Julio César Enciso að láni út tímabilið.

Enciso, sem fagnar 21 árs afmæli sínu í dag, er Paragvæi sem hefur ekki átt fast sæti í liði Brighton á tímabilinu.

Miðjumaðurinn skotfasti vonast til þess að fá fleiri mínútur hjá Ipswich og sagði í viðtali á heimasíðu félagsins að hann myndi berjast fyrir það í hverjum leik.

Ipswich er í 18. sæti, fallsæti, í ensku úrvalsdeildinni með 16 stig, jafnmörg og Wolves sæti ofar en með verri markatölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert