Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur fest kaup á egypska sóknarmanninum Omar Marmoush frá þýska félaginu Eintracht Frankfurt. Skrifaði hann undir samning til sumarsins 2029.
Marmoush er 25 ára gamall og er keyptur á 63 milljónir punda, jafnvirði 11 milljarða íslenskra króna.
Hann hefur farið hamförum með Frankfurt á tímabilinu og skorað 15 mörk í 17 leikjum í þýsku 1. deildinni ásamt því að leggja upp tíu mörk.
Man. City hefur styrkt lið sitt mikið í janúarglugganum og á nú þrjá dýrustu leikmenn gluggans á heimsvísu.
Áður hafði liðið keypt Abdukodir Khushanov frá Lens á 33,6 milljónir punda og Vítor Reis frá Palmeiras á 29,6 milljónir punda.