Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Joey Barton mætti fyrir rétt í Westminster á Englandi í dag. Barton er ákærður fyrir líkamsárás í garð eiginkonu sinnar Georgiu, og er meðal annars gefið að sök að hafa sparkað í höfuð hennar.
Atvikið er sagt hafa átt sér stað á heimili þeirra í Kew í Lundúnum í júní árið 2021. Saksóknari greindi frá málsatvikum fyrir dómstólum í dag.
Þar kom fram að hjónin hafi rifist eftir að hafa setið að sumbli ásamt tveimur öðrum pörum. Joey hafi hótað að slást við bróður og föður Georgiu.
Eftir orðaskak þeirra í milli hafi Joey svo gripið í Georgiu, hrint henni á gólfið og sparkað í höfuð hennar. Vinur þeirra hafi þá reynt að skakka leikinn en Joey fleygt honum af sér og sagt: “Ekki vanvirða mig.”
Georgia hringdi á lögregluna og var símtalið spilað fyrir rétti í Westminster þar sem hún greinir frá því að Joey hafi veitt sér högg í andlitið og að það væri í fyrsta sinn sem hann hafi beitt sig ofbeldi.
Málflutningur í réttarhöldunum heldur áfram næstu daga. Joey Barton hefur neitað sök.