Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að félagið verði að bæta við leikmönnum í leikmannahópinn en liðið hefur glímt við mikil meiðslavandræði í vetur.
Þrátt fyrir öll meiðslin hefur Tottenham aðeins keypt einn mann í janúar en það var tékkneski markvörðurinn Antonin Kinsky sem félagið fékk frá Slavia Prague.
Postecoglou var spurður á blaðamannafundi að því hvort að það væru til peningar til að eyða í leikmannakaup en Johan Lange, tæknilegur ráðgjafi félagsins, sér um leikmannakaupin.
„Ég spyr ekki svona spurninga og er ekki inni í þessum málum. Mín samtöl við Johan og félagið eru um að reyna að hjálpa leikmönnunum sem eru nú þegar hér. Ég mun reyna að fá þá til að vinna sína vinnu,“ sagði Postecoglou.
„Ef við kaupum engan þá erum við að leika okkur að eldinum en félagið er að reyna að breyta því,“ sagði Postecoglou að lokum.