Forest fékk skell - Sjóðheitur Isak

Justin Kluivert skoraði fyrsta mark Bournemouth.
Justin Kluivert skoraði fyrsta mark Bournemouth. AFP/Glyn Kirk

Bournemouth valtaði yfir Nottingham Forest, 5:0, í 23. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu.   

Justin Kluivert kom Bournemouth yfir í fyrri hálfleik og var staðan 1:0 í hálfleik. Dango Ouattara gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik. Antoine Semenyo bætti síðan við fimmta marki Bournemouth í uppbótartíma. 

Sigurganga Forest er þar með á enda en liðið hafði unnið tíu af síðustu ellefu leikjum sínum í deild og bikar og gert eitt jafntefli.

Forest er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 44 stig en Bournemouth er komið upp í sjötta sæti með 40 stig.   

Newcastle í Meistaradeildarsæti

Newcastle lagði botnliðið Southampton, 3:1, á suðurströndinni í dag.

Jan Bednarek kom heimamönnum yfir á 10. mínútu. Hinn sjóðheiti Alexander Isak tók málin í sínar hendur og jafnaði metin á 26. mínútu og kom Newcastle yfir síðan á 30. mínútu, 2:1.

Ítalinn Sandro Tonali innsiglaði sigur Newcastle-manna á 51. mínútu eftir undirbúning frá Anthony Gordon.

Newcastle situr í fjórða sæti með 41 stig en Southampton er áfram á botninum með sex stig.

Sterk innkoma Moyes

Að lokum vann Everton mikilvægan sigur gegn Brighton, 1:0, í dag. Þetta var annar sigur Everton í röð en David Moyes tók við liðinu í byrjun mánaðarins

Senegalinn Iliman Ndiaye skoraði sigurmark Everton-manna úr vítaspyrnu á 42. mínútu.

Everton situr í 16. sæti með 23 stig en Brighton er í níunda sæti með 34 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert