Liverpool tók á móti Ipswich í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Leikið var á Anfield vellinum í Liverpool og fóru heimamenn með þægilegan sigur af hólmi, 4:1.
Eftir sigurinn er Liverpool með sex stiga forystu á toppi deildarinnar en Ipswich er í 18. sæti með 16 stig.
Fyrsta mark leiksins kom á 11. mínútur þegar Dominik Szoboszlai skoraði með góðu skoti fyrir utan teig. Hann fékk þá boltann í fínu plássi á milli miðju og varnar. Ungverjinn hótaði skoti með hægri og færði boltann yfir á vinstri, hann lét síðan vaða að marki og Christian Walton réði ekki við skotið.
Mohamed Salah bætti við öðru marki heimamanna á 35. mínútu. Cody Gakpo átti þá fyrirgjöf frá vinstri yfir á fjærstöngina þar sem Salah beið eftir boltanum. Egyptinn tók við boltanum og setti boltann yfir hausinn á Walton úr þröngu færi. Heimamenn komnir tveimur mörkum yfir.
Á 44. mínútu skoraði Cody Gakpo þriðja mark heimamanna. Ryan Gravenberch setti þá Dominik Szoboszlai í gegn, Ungverjinn náði skoti að marki sem Walton varði út í teiginn. Þar beið Gakpo og setti Hollendingurinn boltann auðveldlega í markið. Þriggja marka munur og Liverpool búið að gera út um leikinn.
Cody Gakpo gerði sitt annað mark á 66. mínútu og kom Liverpool í 4:0. Trent Alexander-Arnold átti þá frábæra fyrirgjöf sem endaði á kollinum á Gakpo sem skallaði boltann frábærlega í netið framhjá Walton.
Gestirnir náðu inn sárabótarmarki á 90. mínútu þegar Jacob Greaves skoraði með flottum skalla eftir hornspyrnu frá Julio Enciso.
Meira var ekki skorað og vann Liverpool sannfærandi sigur á nýliðunum, 4:1.