„Það hræðist okkur enginn lengur“

Lítið hefur gengið hjá Guardiola og lærisveinum hans í Manchester …
Lítið hefur gengið hjá Guardiola og lærisveinum hans í Manchester City. AFP/Ben Stansall

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur sagt að liði hans skorti árásargirni og grimmd sem hefur orðið til þess að lið sem mæta City eru ekki lengur hrædd við ríkjandi meistarana.

Guardiola var á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Chelsea í dag og sagði hann að mótherjar City væru farnir að spila öðruvísi fótbolta gegn liði hans.

„Það mættu alltaf öll lið á Etihad og lágu til baka. Fyrsta liðið sem ég sá pressa okkur var Cardiff undir stjórn Neil Warnock. Nú gera það allir. Öll lið koma hingað, skiptir ekki máli hvaða lið það er, og pressa okkur hátt uppi,“ sagði Guardiola.

„Liðin pressa á markverði okkar, hvort sem það er Ederson eða Ortega. Þú verður að aðlagast því, gera betur með boltann. Annars erum við ekki að fara að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili,“ sagði Guardiola.

City tapaði illa fyrir París SG í Meistaradeild Evrópu í vikunni og er liðið ekki í umspilssæti fyrir síðustu umferðina. Þá hefur liðinu gengið illa í ensku úrvalsdeildinni og situr í 5. sæti, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.

„Hraði er mikilvægur en við hlupum meira en liðsmenn París SG. Vandamál okkar er þegar við höfum boltann, það hefur háð okkur á þessu tímabili. Ef þú hefur boltann og nærð ekki að senda nákvæmar sendingar á liðsfélaga þína þá verður allt svo erfitt,“ sagði Guardiola.

„Það koma tímabil þar sem þú glímir við fullt af erfiðleikum en það er spurning hvernig maður stendur upp og hvernig maður kemst aftur á toppinn. Ég man eftir þegar Mourinho sagði að enda í 2. sæti með Manchester United væri hans stærsta afrek á ferlinum. Ég skil nákvæmlega hvað hann meinti með því en það verður stór sigur fyrir okkur ef við náum Meistaradeildarsæti eftir allt sem við höfum gengið í gegnum á þessu tímabili,“ sagði Guardiola að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert