„Ein versta ákvörðun sem ég hef séð“

Gabriel og Myles Lewis-Skelly undrandi eftir að sá síðarnefndi fékk …
Gabriel og Myles Lewis-Skelly undrandi eftir að sá síðarnefndi fékk beint rautt spjald frá Michael Oliver. AFP/Darren Staples

Alan Shearer, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur, botnaði hvorki upp né niður í ákvörðun Michaels Olivers að gefa Arsenal-manninum Myles Lewis-Skelly beint rautt spjald í 1:0-sigri á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Lewis-Skelly stöðvaði skyndisókn á vallarhelmingi Úlfanna og mat Oliver það sem svo að hann hafi gerst sekur um grófan leik þegar Lewis-Skelly fór með takkana fyrir ofan ökkla Matts Dohertys.

VAR staðfesti svo ákvörðunina.

Aldrei nokkurn tímann rautt

„Þetta er ein versta ákvörðun sem ég hef séð lengi. Sem dómari geturðu gert mistök á vellinum. Þú gætir séð eitthvað sem er rangt.

Hvernig í veröldinni fær Darren England, VAR-dómarinn, það út að dómarinn hafi verið með þetta rétt og finnst ekki þörf á því að senda hann í skjáinn?“ velti Shearer fyrir sér á útvarpsstöðinni BBC Radio 5 Live.

Í sjónvarpsþættinum Match of the Day bætti Shearer við:

„Þetta hefði átt að vera gult spjald. Þetta er skelfileg ákvörðun. Það var enginn hraði, enginn ákafi, andstæðingurinn var ekki í hættu og var 80 metrum frá markinu. Þetta var aldrei nokkurn tímann rautt spjald.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert