Leicester úr fallsæti með sigri á Tottenham

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, hnípinn eftir tapið í dag.
Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, hnípinn eftir tapið í dag. AFP/Henry Nicholls

Nýliðar Leicester City unnu endurkomusigur á Tottenham Hotspur, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í Lundúnum í dag og fóru með sigrinum upp úr fallsæti.

Leicester er með 17 stig í 17. sæti, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið, og Tottenham er í 15. sæti með 24 stig.

Richarlison kom Tottenham yfir eftir rúmlega hálftíma leik en strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði gamla brýnið Jamie Vardy metin fyrir Leicester.

Skömmu síðar, á 50. mínútu, tryggði Bilal El Khanouss gestunum frá Leicester sigurinn með laglegu skoti rétt fyrir utan vítateig.

Brentford lagði Palace

Brentford heimsótti nágranna sína í Crystal Palace og vann sömuleiðis 2:1-sigur.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Bryan Mbeumo gestunum í Brentford í forystu um miðjan síðari hálfleikinn.

Kevin Schade tvöfaldaði forystuna áður en hinn 19 ára gamli Romain Esse minnkaði muninn í sínum fyrsta leik fyrir Palace eftir að hann var nýverið keyptur frá Millwall.

Bæði Brentford og Palace sigla lygnan sjó um miðja deild. Brentford er í 11. sæti með 31 stig og Palace er sæti neðar með 27.

Hákon Rafn Valdimarsson var varamarkvörður Brentford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert