Allt bendir til þess að það verði fimm ensk lið í Meistaradeild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð.
Tölfræðivefsíðan Opta segir 98 prósenta líkur á því að enska úrvalsdeildin fái eitt aukasæti til viðbótar við hin fjögur fyrir næsta keppnistímabil.
Hingað til hafa fjögur efstu lið deildarinnar fengið sæti í Meistaradeildinni en liðið sem hefur hafnað í fimmta sætinu hefur fengið keppnisrétt í Evrópudeildinni.
England leiðir kapphlaupið um flest stig í baráttunni um auka Evrópusæti, þar sem ensku liðin hafa staðið sig vel í Evrópukeppnum á tímabilinu, en Ítalía og Spánn koma þar á eftir.
Ef enska úrvalsdeildin fengi fimm sæti í Meistaradeildinni í dag þá væru Liverpool, Arsenal, Nottingham Forest, Manchester City og Newcastle á leið í Meistaradeildina og Chelsea á leið í Evrópudeildina.
Bournemouth fengi síðan sæti í Sambandsdeildinni og færi í Evrópukeppni í fyrsta skipti.