Salah hetja Liverpool

Mohamed Salah skoraði tvö mörk í dag.
Mohamed Salah skoraði tvö mörk í dag. AFP/Glyn Kirk

Liverpool sigraði Bournemouth 2:0 í 24. um­ferð ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar í knatt­spyrnu á útivelli í dag.

Liverpool er á toppi deildarinnar með 56 stig. Með níu stiga forskot á Arsenal og Nottingham Forest í öðru og þriðja sæti. Bournemouth er í sjöunda með 40 stig.

Leikurinn var fjörugur til að byrja með og mikill hraði fyrstu 30 mínútur leiksins. Bæði lið sóttu grimmt og það var ekki liðin mínúta af leiknum þegar Bournemouth náði skoti á markið.  Trent Alexander-Arnold tapaði boltanum og Bournemouth sótti hratt og Antoine Semenyo fór í skot en Alisson var vel á verði og varði.

Cody Gakpo bjó sér til fínt færi eftir rúmlega stundarfjórðung þegar hann kom inn á völlinn frá vinstri og fór í skot en Kepa Arrizabalaga varði vel.

Semenyo fékk annað hættulegt færi þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum en hann skaut þá í stöngina af stuttu færi

Ryan Gravenberch og Antoine Semenyo eigast við í dag.
Ryan Gravenberch og Antoine Semenyo eigast við í dag. AFP/Glyn Kirk

Dominik Szoboszlai fékk dauðafæri fjórum mínútum síðar. Liverpool sótti hratt sem var þema leiksins fyrsta hálftímann. Mohamed Salah sendi glæsilega sendingu á Szoboszlai sem var einn á móti Kepa en skotið var lélegt og Kepa varði af stuttu færi.

Salah sá sjálfur um að koma Liverpool yfir þegar hálftími var liðinn af leiknum eftir umdeilda vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Gakpo fór niður inni í teig. Salah var öruggur á punktinum og þrumaði boltanum niður í hægra hornið.

Sjö mínútum síðar setti David Brooks boltann í netið eftir flotta samvinnu hjá Semenyo og Milos Kerkez en sá síðarnefndi var fyrir innan og markið dæmt af.

Staðan var 1:0 fyrir Liverpool í hálfleik og Bournemouth byrjaði seinni hálfleik af sama krafti og fyrri og var með tilraun á markið þegar minna en mínúta var liðin, í þetta sinn var það skallatilraun en Alisson varði.

Á 71. mínútu fékk Justin Kluivert jafn gott færi og Salah þegar hann var á vítapunktinum en hann náði að klúðra því. Marcus Tavernier átti frábært skot en það fór í stöngina. Kluivert var fyrstur á frákastið og markið galopið en hann setti boltann fram hjá.

Fjórum mínútum síðar skoraði Salah annað mark sitt þegar hann fékk boltann úti hægra megin frá Curtis Jones og skrúfaði hann í fjærhornið og leikurinn endaði 2:0.



Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Bournemouth 0:2 Liverpool opna loka
90. mín. Fim mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert