Leeds United er áfram á toppi ensku B-deildarinnar í fótbolta eftir risasigur á Cardiff, 7:0, á heimavelli sínum í dag.
Brenden Aaronson og Manor Solomon komu Leeds í 2:0 á fyrstu 13 mínútunum en Daniel James lagði upp bæði mörkin. James var sjálfur á ferðinni með þriðja markið á 50. mínútu.
Joel Piroe skoraði fjórða markið úr víti á 65. mínútu og Wilfried Gnonto bætti við fimmta markinu á 67. mínútu, mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður.
Annar varamaður Mateo Joseph skoraði sjötta markið á 88. mínútu og Piroe gerði sitt annað mark og sjöunda mark Leeds í uppbótartíma.
Leeds er á toppnum með 63 stig, tveimur meira en Sheffield United og fimm meira en Burnley. Sheffield-liðið vann Derby á útivelli, 1:0, á meðan Burnley gerði markalaust jafntefli við Portsmouth á útivelli.