Alfie Haaland, faðir Erlings Haalands, skaut föstum skotum á Arsenal eftir að liðið hafði betur gegn Manchester City, 5:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.
Erling skoraði mark Man. City en var mikið tekinn fyrir af leikmönnum Arsenal. Þar fór fremstur í flokki Gabriel sem fagnaði fyrsta marki Arsenal til að mynda með því að hlæja framan í sóknarmanninn.
Myles Lewis-Skelly fagnaði svo marki sínu með því að vísa til hugleiðslufagns Haalands.
Eftir leikinn birti Arsenal færslu á X-aðgangi sínum þar sem stóð einfaldlega: „Þetta lið.“
Alfie, sem sjálfur lék með Man. City á sínum tíma, brást við með því að skrifa á X-aðgangi sínum: „„Þetta lið” sem vinnur allt. Ehhhhh, ekki.“
Vísaði hann þar til þess að Arsenal vann síðast stóran titil árið 2020.
«This Team» that wins everything. Ehhhhh, not. 🩵 https://t.co/B81Ais3J6a
— Alfie Haaland (@alfiehaaland) February 2, 2025