Enska knattspyrnufélagið Crystal Palace hefur hafnað 70 milljóna punda tilboði Tottenham Hotspur í fyrirliða fyrrnefnda liðsins, Marc Guéhi.
70 milljónir punda jafngilda tæplega tíu milljörðum íslenskra króna.
Tottenham samdi í gær við austurríska miðvörðinn Kevin Danso, sem kemur að láni frá Lens í Frakklandi og verður svo keyptur í sumar, og er í leit að einum miðverði til viðbótar.
Guéhi er einn slíkur en Palace hefur ekki hug á að selja hann. Chelsea var áhugasamt um að kaupa miðvörðinn í janúarglugganum og Newcastle United reyndi að kaupa hann síðasta sumar.
Hann á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Palace og ákveði Guéhi að framlengja ekki gæti Palace fundið sig knúið til þess að selja hann næsta sumar.