Portúgalski sóknarmaðurinn Joao Félix er genginn til liðs við ítalska knattspyrnufélagið AC Milan að láni frá Chelsea, aðeins hálfu ári eftir að hann var keyptur til enska félagsins frá Atlético Madríd.
Félix hefur verið í algjöru aukahlutverki hjá Chelsea á tímabilinu og mestmegnis fengið að spila í Sambandsdeild Evrópu.
Hann var keyptur á 42 milljónir punda síðasta sumar. Áður hafði Félix leikið með Chelsea að láni tímabilið 2022-23.
AC Milan greiðir fimm milljónir punda fyrir að fá hann að láni.
Felix, sem er 25 ára gamall, er fjórði dýrasti knattspyrnumaður sögunnar eftir að Atlético Madrid keypti hann af Benfica fyrir 126 milljónir evra, aðeins 19 ára gamlan, árið 2019.
Honum hefur gengið illa að standa undan væntingum, var lánaður tvisvar frá Atlético áður en Chelsea keypti hann síðasta sumar, og freistar þess nú að rétta ferilinn af með AC Milan.