Enska knattspyrnufélagið Wolves náði að stækka leikmannahóp sinn á síðustu stundu í gærkvöld en tveir leikmenn komu til félagsins nokkru eftir að félagaskiptaglugganum var lokað klukkan 23.
Eftir miðnættið gátu Úlfarnir staðfest að þeir hefðu krækt í tvo nýja leikmenn, sem báðir eru landsliðsmenn Afríkuríkja.
Þeir keyptu Marshall Munetsi frá Simbabve af Reims í Frakklandi fyrir 16 milljónir punda og Nasser Djiga frá Búrkina Fasó af Rauðu stjörnunni í Serbíu fyrir tíu milljónir punda.
Munetsi er 28 ára gamall miðjumaður sem skoraði 21 mark í 159 deildaleikjum fyrir Reims og á 29 landsleiki að baki fyrir Simbabve.
Djiga er 22 ára gamall varnarmaður sem lék 27 leiki með Rauðu stjörnunni í vetur, m.a. alla átta leiki liðsins í deildarkeppni Meistaradeildarinnar. Hann hefur leikið átta landsleiki fyrir Búrkina Fasó.