Amorim: „Höfum gert mistök í fortíðinni“

Rúben Amorim.
Rúben Amorim. AFP/Darren Staples

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir nýja leikmenn liðsins, Patrick Dorgu og Ayden Heaven, klára í slaginn fyrir leik gegn Leicester City í ensku bikarkeppninni annað kvöld.

Dorgu og Heaven voru keyptir í janúarglugganum. „Þeir eru reiðubúnir að spila,“ sagði Amorim á fréttamannafundi í dag.

Spurður hvort þeir muni koma við sögu sagði hann: „Við skulum sjá til, þið þurfið að bíða þar til á morgun en þeir eru klárir í slaginn og eru tvær lausnir til viðbótar í augnablikinu.“

Amorim var þá spurður hvort hann hefði viljað styrkja liðið með fleiri leikmönnum.

„Það sem mér finnst er að félagið er að taka sinn tíma. Við vitum hversu áríðandi augnablikið er hjá liðinu og enginn hérna vill gera sömu mistök og hafa verið gerð í gegnum tíðina.

Við munum sjá hvað gerist í sumar en eins og ég sagði erum við að stíga mjög varlega til jarðar þegar kemur að kaupum því við höfum gert svolítið af mistökum í fortíðinni,“ sagði portúgalski stjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert