Maguire hetja bikarmeistaranna sem fóru áfram með herkjum

Patrick Dorgu með boltann í sínum fyrsta leik með Manchester …
Patrick Dorgu með boltann í sínum fyrsta leik með Manchester United. AFP/Oli Scarff

Bikarmeistarar Manchester United eru komnir áfram í næstu umferð enska bikarsins eftir dramatískan sigur á Leicester, 2:1, í fimmtu umferð keppninnar á Old Trafford í kvöld. Harry Maguire var hetja United en hann skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartímans.

Leikurinn fór vægast sagt rólega af stað og gerðist fátt markvert í fyrri hálfleiknum. Jordan Ayew fékk ágætis skotfæri snemma leiks en Andre Onana varði skotið þægilega.

Liðin skiptust á að halda boltanum í fyrri hálfleiknum en illa gekk að skapa færi. Það var ekki fyrr en á 43. mínútu sem ísinn brotnaði en Bobby Decordova Reid fylgdi þá eftir skoti Wilfred Ndidi úr teignum og skallaði boltann í netið af stuttu færi. Það var því Leicester sem leiddi óvænt í hálfleik, 1:0.

Á 65. mínútu mátti svo engu muna að heimamenn næðu að jafna metin. Alejandro Garnacho, sem kom inná sem varamaður í hálfleik, slapp þá inn fyrir vörn Leicester vinstra megin og var kominn einn gegn Mads Hermansen. Garnacho var örlítið lengi að koma sér í skotið og Wout Faes náði að renna sér fyrir, sem varð til þess að boltinn sveif yfir Hermansen í markinu og stefndi í netið. Þá kom Caleb Okoli á mikilli ferð og náði að bjarga á marklínu á ótrúlegan hátt með því að hamra boltanum upp í þverslánna og niður aftur.

Einungis tveimur mínútum síðar jafnaði United þó metin. Garnacho gerði þá mjög vel vinstra megin og setti boltann fyrir markið með grasinu. Boltinn barst á Rasmus Höjlund sem reyndi hælspyrnu, sem fór af Wout Faes og barst til Joshua Zirkzee fyrir opnu marki. Hollendingurinn, sem var nýkominn inná sem varamaður, lagði boltann í opið mark og allt orðið jafnt á nýjan leik.

Eftir jöfnunarmarkið voru heimamenn töluvert betri aðilinn og komu sér nokkrum sinnum í ágætis stöðu án þess að búa til dauðafæri. Það var svo í uppbótartíma sem Bruno Fernandes átti frábæra aukaspyrnu nánast frá miðlínu, beint á kollinn á algjörlega ódekkuðum Harry Maguire sem stangaði boltann í netið og tryggði United sigurinn. Við endursýningu virtist Maguire vera fyrir innan en VAR er ekki notað í þessari umferð bikarsins svo markið stóð.

United verður því í pottinum þegar dregið verður í næstu umferð en Leicester er úr leik.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. United 2:1 Leicester opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert