Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, er himinlifandi með að vera á leið í sinn fyrsta úrslitaleik með liðið eftir að liðið lagði Tottenham Hotspur að velli í undanúrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi.
Liverpool vann síðari leikinn 4:0 og einvígið þar með samanlagt 4:1. Hollendingurinn er á leið á Wembley í fyrsta sinn og rifjaði í því skyni upp 1:0-sigur Barcelona í Meistaradeild Evrópu á Sampdoria í úrslitaleik á Wembley, þar sem landar hans voru í stóru hlutverki.
„Allir Hollendingar vita hversu mikilvægur Wembley reyndist Ronald Koeman, Barcelona og Johan Cruyff. Það er sérstakt að fara þangað þar sem ég veit hversu einstakur leikvangurinn er.
En það er einungis sérstakt ef þér tekst að vinna. Við vitum hversu erfitt það verður þar sem Newcastle er mjög öflugt lið,“ sagði Slot á fréttamannafundi eftir sigurinn á Tottenham í gærkvöldi.
Úrslitaleikur Liverpool og Newcastle United fer fram á Wembley 16. mars.