Knattspyrnumanninum Arnóri Sigurðssyni var tilkynnt í morgun að hann væri ekki á 25-manna leikmannalista Blackburn Rovers fyrir síðari hluta tímabilsins í ensku B-deildinni.
Í samtali við Vísi sagði Skagamaðurinn að ákvörðunin hefði komið flatt upp á hann. Arnór kvaðst þar ósáttur við tímasetninguna, ekki síst þar sem félagaskiptaglugganum í janúar hefur verið lokað og möguleikarnir því ekki jafn margir fyrir hann til þess að leita annað.
„Fyrst og fremst finnst mér það bara óheiðarlegt hjá félaginu, hvernig þeir gera þetta. Ég hef alltaf verið fagmaður í þessu, alltaf gefið mig allt mitt í þetta fyrir félagið en síðan ákveða þeir að gera þetta svona.
Bíða eftir að félagskiptaglugginn lokar og tilkynna mér þetta svo. Þeir setja mig í ómögulega stöðu. Ég er að renna út á samning eftir tímabilið og er búinn að vera meiddur. Það er kannski auðvelt að henda manni burt þegar að maður ætlar ekki að endursemja,“ sagði Arnór við Vísi.
Samningur hans rennur út í sumar og hefur Arnór því spilað sinn síðasta leik fyrir liðið. Kantmaðurinn hefur aðeins náð að spila fimm leiki fyrir Blackburn á tímabilinu vegna veikinda og svo meiðsla og getur brátt hafið æfingar að nýju.
„Það eru einhverjir félagsskiptagluggar opnir en það er bara eitthvað sem ég þarf að skoða. Eins og staðan er núna er ég ekki að pæla í neinu öðru en að ná mér heilum,“ bætti Arnór við.