Enn sérstakara að vinna Liverpool

Guðlaugur Victor fagnar vel í leikslok.
Guðlaugur Victor fagnar vel í leikslok. Ljósmynd/Plymouth

Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta og enska B-deildarliðsins Plymouth, var í skýjunum með sigur Plymouth á Liverpool í 32-liða úrslitum enska bikarsins á sunnudag, 1:0.

„Við komum mjög vel undirbúnir í leikinn og trúðum því að við gætum unnið, þótt við höfum glímt við ákveðin vandamál á leiktíðinni. Við höfðum engu að tapa og gátum notið þess að spila. Þetta var klikkað og æðislegt að vera partur af.

Við komum okkur í sögubækurnar með þessum sigri og þetta eru tilfinningar sem peningar geta ekki keypt. Við fögnuðum eins og brjálæðingar inni í klefa og með stuðningsmönnum. Við nutum þess að fagna eftir leik,“ sagði hann við Tipsbladet í Danmörku.

Guðlaugur samdi ungur að árum við Liverpool og lék með varaliði félagsins en náði aldrei að spila með aðalliðinu. Fáir áttu von á öðru en öruggum sigri Liverpool gegn botnliði B-deildarinnar. 

„Það gerir þetta enn sérstakara. Ég var í U23 ára liði Liverpool og við vorum nánir aðalliðinu þá. Ég var með 44 á bakinu hjá Liverpool og aftur núna hjá Plymouth. Það var svo enn betra að gera þetta fyrir framan fjölskylduna í stúkunni,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert