Langlíklegastur til þess að verða rekinn

Ange Postecoglou.
Ange Postecoglou. AFP/Justin Tallis

Ástralski knattspyrnustjórinn Ange Postecoglou er langlíklegastur til þess að verða rekinn af stjórunum í ensku úrvalsdeildinni samkvæmt enskum veðbönkum.

Stuðullinn á það að Postecoglou verði sagt upp störfum á næstu dögum er 6/4 eða 1,5. Ruud van Nistelrooy, stjóri Leicester, kemur þar á eftir með stuðulinn 2/1 eða 2,00.

Tottenham tapaði í gær fyrir Aston Villa, 2:1, í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í Birmingham og þá féll Tottenham úr leik eftir 4:0-tap gegn Liverpool í síðari leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins í síðustu viku.

Tottenaham situr sem stendur í fjórtánda sæti úrvalsdeildarinnar með einungis 27 stig, tíu stigum frá fallsæti, en liðið hefur fengið fjögur stig af 24 mögulegum úr síðustu átta deildarleikjum sínum.

Postecoglou tók við stjórnartaumunum hjá Tottenham fyrir tímabilið 2023-24 og hafnaði liðið í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert