Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, líkti leikskipulagi enska B-deildarfélagsins Plymouth við leikskipulag Manchester United á blaðamannafundi í gær eftir tap Liverpool gegn Plymouth í 4. umferð ensku bikarkeppninnar í Plymouth.
Liverpool, sem trónir á toppi úrvalsdeildarinnar með 56 stig og sex stiga forskot á Arsenal, þurfti að sætta sig við tap í Plymouth, 1:0, en Plymouth er í neðsta sæti B-deildarinnar með 25 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.
Liverpool var langt frá sínu besta í gær en Slot hvíldi marga lykilmenn í leiknum og gaf yngri leikmönnum liðsins tækifæri.
„Það er ákveðin leikfræði og leikskipulag sem við höfum lent í vandræðum með á tímabilinu,“ sagði Slot.
„Við eigum í vandræðum með þessa löngu bolta fram völlinn og það sýndi sig í jafnteflinu gegn Manchester United á Anfield. Þeir spiluðu svipaðan bolta og Plymouth gerði. Þeir vörðust mjög aftarlega á vellinum og negldu boltanum svo fram í hvert einasta skipti.
Leikmennirnir sem spiluðu í dag eru ekki allir í leikformi og þeir voru í vandræðum, það var augljóst,“ sagði Slot meðal annars.