Varpar ljósi á framtíð Salah hjá Liverpool

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP/Oli Scarff

Króatíski knattspyrnumaðurinn Dejan Lovren skilur ekkert í forráðamönnum enska knattspyrnufélagsins Liverpool þessa dagana.

Lovren, sem er 35 ára gamall, þekkir vel til hjá Liverpool eftir að hafa leikið með liðinu frá 2014 til ársins 2020 en hann er samningsbundinn PAOK í Grikklandi í dag.

Lovren varð Englandsmeistari og Evrópumeistari með Liverpool en hann og Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool, eru góðir vinir í dag eftir tíma sinn saman hjá Liverpool.

Salah vill vera áfram

„Ég vil að Salah verði áfram hjá Liverpool og hann vill sjálfur vera áfram í herbúðum félagsins,“ sagði Lovren í samtali við talkSport.

„Ég skil ekkert í forráðamönnum félagsins að semja ekki við hann en mín skoðun er sú að forráðamenn félagsins meta hann ekki að verðleikum. 

Hann fær ekki þá virðingu sem hann á skilið og eins og staðan er í dag þá er hann nær því að yfirgefa félagið en að skrifa undir nýjan samning á Anfield,“ sagði Lovren en samningur Salah rennur út í sumar og er honum þá frjálst að róa á önnur mið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert