Kínverska liðið Royal Never Give Up hafði betur gegn suðurkóreska liðinu DAMWON Gaming í úrslitaviðureign Mid Season Invitational-mótsins í tölvuleiknum League of Legends sem haldið er hér á landi í Laugardalshöll. Var staðan jöfn, 2-2, þegar fimmti og seinasti leikurinn var spilaður en hann endaði með sigri Royal Never Give Up.
DAMWON Gaming eru núverandi heimsmeistarar og hafa unnið öll svokölluð premier- og major tier-mót sem þeir hafa keppt í seinasta árið. Royal Never Give Up mætti hins vegar ákveðið til leiks á mótið og hafði unnið langflesta leiki sína þegar að úrslitaviðureigninni kom. Það var því aldrei við öðru að búast en að viðureignin yrði jöfn og hvorugt liðið gat gengið að sigri sem vísum.
Liðin skiptust á sigrum í viðureigninni en þegar að úrslitaleiknum kom lokuðu Royal Never Give Up honum á stuttum 27 mínútum. Þeir fara því heim með titil sigurvegara, MSI-bikarinn góða og 9 milljónir íslenskra króna í verðlaunafé. DAMWON Gaming þurfa hins vegar að sætta sig við litlar 6 milljónir íslenskra króna fyrir annað sætið.
Næsta premier-mót í League of Legends verður League Championship Series 2021 Summer sem mun eiga sér stað á tímabilinu 4. júní til 29. ágúst.