Norðurameríka vann frækinn sigur gegn Evrópu í gær þegar Version1 vann viðureign sína gegn Team Liquid og Sentinels vann viðureign sína gegn Fnatic. Suðausturasíska liðið X10 mætti líka skemmtilega sterkt til leiks gegn brasilíska liðinu Team Vikings þótt það hafi ekki dugað til.
Nú þegar tveir dagar eru liðnir af Reykjavík Masters mótinu í tölvuleiknum Valorant sem fer fram hér á landi í Laugardalshöll er áhugavert að líta yfir stöðuna, sér í lagi vegna þess að gærdagurinn var á ákveðinn hátt einn stærsti dagur mótsins. Með sigri Version1 á Crazy Raccoon og sigri Fnatic á KRÜ í fyrradag hafði nefnilega myndast sannkallaður keppnisdagur Norður-Ameríku gegn Evrópu sem fór fram í gær.
Þar sem mótið er fyrsta alþjóðlega mótið í leiknum hefur hingað til ekki verið hægt að bera lið frá mismunandi heimssvæðum saman. Vegna þess hafði myndast ákveðinn rígur milli aðdáenda svæðanna um hvert þeirra hefði raunverulega betri lið í leiknum. Af þessum aðdáendahópum voru eflaust norðuramerísku og evrópsku hóparnir háværastir sín á milli. Þannig þegar það kom á daginn að norðurameríska liðið Version1 myndi mæta evrópska liðinu Team Liquid og norðurameríska liðið Sentinels myndi mæta evrópska liðinu Fnatic á sama degi varð mikil tilhlökkun meðal aðdáenda um að fá þessari spurningu loksins svarað.
Og var því svarað: norðuramerísku liðin tóku báðar viðureignir og eru bæði evrópsku liðin því komin í neðri deild. Bjuggust eflaust margir við því að Team Liquid myndi taka viðureign sína gegn Version1 og má jafnvel segja að þetta sé fyrsta „áfall“ (e. upset) mótsins, en aðrar viðureignir mótsins hafa nokkurn veginn gengið eftir eins og við var að búast.
Eins og staðan er einmitt núna eru það Sentinels, Team Viking, Version1 og NUTURN Gaming sem eru enn í efri riðli. Hins vegar eru X10 Esports, Crazy Raccoon, Sharks Esports, KRÜ Esports, Team Liquid og Fnatic dottin í neðri riðil. Enginn hefur dottið út af mótinu ennþá en mun það gerast í dag þegar annað hvort X10 Esports eða Crazy Raccoon fellur út eftir viðureign þeirra á milli og sömuleiðis þegar annað hvort Sharks Esports eða KRÜ Esports fellur út eftir viðureign þeirra á milli.
Næstu leikir mótsins eru fyrrgreindir leikir milli X10 Esports og Crazy Raccoon í dag klukkan 15 og milli Sharks Esports og KRÜ Esports klukkan 17:30. Þeim fylgir svo leikur Sentinels gegn brasilíska liðinu Team Vikings klukkan 20 í kvöld.