Brasilíska liðið Team Vikings vann sína fyrstu viðureign á Masters Reykjavík mótinu í gær þegar liðið keppti gegn suðausturasíska liðinu X10 Esports. Bjuggust margir við þessum úrslitum en X10 Esports gerðu Team Vikings samt sem áður erfitt fyrir og sendu seinni leik liðanna í fyrstu framlengingu mótsins.
Þrátt fyrir að Suðausturasía hafi marga góða leikmenn og góð lið voru Tælendingarnir í X10 Esports ekki ofarlega á lista þegar spáð var fyrir um gengi liða á Masters Reykjavík og þeim ekki spáð sigri gegn Team Vikings þegar viðureignin hófst. Brasilíumennirnir í Team Vikings kláruðu sína undankeppni í efsta sæti og eru leikmenn þeirra sterkir og með gott mið. Þessari viðureign hefði því mátt lýsa sem korter í Davíð og Golíat áður en hún hófst.
Eins og í öllum viðureignum fyrradags var borðið Split bannað strax í upphafi viðureignar, en það voru Team Vikings sem bönnuðu það. X10 bönnuðu í kjölfarið borðið Bind og völdu svo liðin borðin Icebox og Ascent hvort fyrir sig. Haven varð eftir sem lokaborð.
Minnstu munaði að spilað væri til þriðja leiks í þessari viðureign en X10 Esports börðust af hörku. Leikirnir enduðu þó 13-11 í Icebox og 14-12 í Ascent, Team Vikings í vil, og var X10 þar með dottið niður í neðri riðil. X10 eiga þó hrós skilið fyrir frammistöðu sína; þeir voru lítilmagnar í viðureigninni en héldu henni þrátt fyrir það jafnri og fóru með seinni leik í fyrstu framlengingu mótsins.
X10 Esports þurfa að halda í þennan eldmóð en þeir eiga strax í dag viðureign í neðri riðli gegn Crazy Raccoon og mun einungis sigurvegari þeirrar viðureignar fá að halda áfram á mótinu. Það er því allt undir í viðureign þeirra á milli klukkan 15 í dag.