Sentinels halda sigurgöngu sinni áfram

Fyrsti leikur liðanna hófst nokkuð jafn.
Fyrsti leikur liðanna hófst nokkuð jafn. Grafík/Riot Games

Norðurameríska liðið Sentinels sigraði brasilíska liðið Team Vikings í gær 2-0 og heldur þar með áfram sigurgöngu sinni. Flestallir höfðu spáð Sentinels sigri og kemur þetta því ekki á óvart. Þrátt fyrir það bjuggust kannski einhverjir við meiri andstöðu frá Team Vikings þar sem Brasilíumennirnir eru þekktir fyrir að spila hratt, sem gæti hafa komið Sentinels á óvart, ásamt því að vera hörkuskyttur.

Sentinels tóku sína fyrstu viðureign á mótinu á þriðjudaginn þegar þeir kepptu gegn evrópska liðinu Fnatic. Var sú viðureign nokkuð jöfn þrátt fyrir lokastöðuna 2-0 og voru því einhverjar raddir á lofti um að Sentinels væru ekki alveg jafn ósigrandi og margir héldu. Fnatic geta þó talist ansi gott lið sjálfir og var því ekki óeðlilegt að þeir gætu spilað á nokkuð jöfnum grundvelli gegn Sentinels.

Team Vikings voru einnig að keppa sína fyrstu viðureign á þriðjudaginn og spiluðu þar gegn suðausturasíska liðinu X10 Esports. Við höfum séð núna að X10 Esports virðast ætla að standa sig vel á mótinu en áður en sú viðureign hófst voru Vikings taldir nokkurn veginn vera með þetta. Þegar þeirri viðureign lauk nokkuð jafnri var því komin sú spurning hvort að X10 væru betri en fólk grunaði eða hvort Vikings væru verri en fólk héldi.

Tóku fimm umferðir í röð

Viðureignin hófst með kunnulegu stefi þegar Team Vikings bönnuðu borðið Split eftir að Sentinels höfðu bannað borðið Bind. Hefur Split nú verið bannað 8 sinnum í 9 viðureignum á mótinu. Borðin sem urðu fyrir valinu voru Haven frá Team Vikings og Icebox frá Sentinels – Ascent var til staðar sem lokaborð.

Fyrsti leikur var í borðavali Sentinels, Icebox, og hófst hann nokkuð jafn. Þegar kominn var hálfleikur gátu Brasilíumennirnir svo sannarlega klappað sér á bakið en staðan var einungis 7-5 Sentinels í vil í þeirra borðavali. Sentinels sýndu hins vegar af hverju fólk telur þá besta lið í heimi í seinni hálfleik þegar þeir tóku fimm umferðir í röð. Team Vikings náðu að stöðva blæðinguna í tvær umferðir áður en Sentinels lokuðu svo leiknum, 13-7.

Næst var þó borðaval Team Vikings, Haven, en ekki mátti sjá að svo væri. Sentinels svoleiðis sprungu inn í leikinn og tóku 7 umferðir í röð og það virtist sem Vikings hefðu engin svör. Þeir náðu að púsla saman einhverjum umferðum þegar leið á leikinn en allt kom fyrir ekki og voru þeir sendir niður í neðri riðil með 13-6 sigri Sentinels.

Með því er Sentinels komið í undanúrslit og mætir þar annað hvort „samsvæðingum“ sínum, norðurameríska liðinu Version1, eða suðurkóreska liðinu NUTURN Gaming. Leikurinn milli þeirra liða, sem lofar því að vera æsispennandi, hefst klukkan 15 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert