Fnatic stöðvar X10 Esports

sScary felldi fjóra leikmenn Fnatic en hefði þurfti ace til …
sScary felldi fjóra leikmenn Fnatic en hefði þurfti ace til að bjarga 7. umferð í Haven Skjáskot/Riot Games

Evrópska liðið Fnatic stöðvaði gott gengi suðausturasíska liðsins X10 Esports á Masters Reykjavík í gær þegar þeir unnu viðureign sína gegn þeim 2-0. Sigurinn var fyrirsjáanlegur en flestallir spáðu Fnatic sigri og höfðu X10 Esports einungis um 16% líkur á að sigra samkvæmt veðbönkum.

Fnatic hafa staðið sig vel á mótinu hingað til og spiluðu til að mynda nokkuð jafnan leik við Sentinels í seinni viðureign sinni á mótinu, en Sentinels eru taldir sigurstrangasta lið mótsins. Fnatic er stórt félag í rafíþróttasenunni og því þannig séð við miklu að búast af þeim en á sama tíma er Valorant liðið þeirra er hins vegar nokkuð nýtt. Þrátt fyrir að hafa komist inn á mótið með því að lenda í öðru sæti í Evrópu, Mið-Austurlanda og Afríku undankeppninni þurftu þeir því enn að sanna sig fyrir sumum.

X10 Esports komu inn á mótið sem ákveðnir lítilmagnar og hafa staðið sig furðu vel miðað við þann árangur sem þeim var spáð. Þeir töpuðu að vísu fyrstu viðureign sinni gegn brasilíska liðinu Team Vikings en það var þó mjög jafn leikur. Í kjölfarið unnu þeir japanska liðið Crazy Raccoon nokkuð örugglega þrátt fyrir að Crazy Raccoon höfðu spilað á jöfnum grundvelli gegn norðurameríska liðinu Version1, sem við höfum nú séð að eru að gera ótrúlega góða hluti á mótinu.

Sigurinn var aldrei í hættu

Borðaval var nokkurn veginn eins og við var að búast frá báðum liðum en Fnatic bannaði borðið Split og valdi borðið Icebox. X10 Esports bönnuðu borðið Bind og völdu borðið Haven. Ascent sat því eftir sem lokaborð.

Fyrsti leikur viðureignarinnar var í borðavali Fnatic, Icebox, og var það nokkuð augljóst en þeir byrjuðu leikinn á að taka sex umferðir í röð. X10 Esports náðu að lokum einni umferð og svo aftur þremur umferðum, svo staðan var 8-4 fyrir Fnatic í hálfleik. Fnatic létu það ekki á sig fá og sprungu aftur inn í seinnihálfleik með fimm umferðum í röð og lokuðu þar með leiknum, 13-4.

Seinni leikur var í borðavali X10 Esports, Haven, og byrjuðu þeir leikinn á því að taka fyrstu þrjár umferðirnar. Hér má þó segja að góða gengið hafi klárast en Fnatic snéru leiknum svo við með því að taka níu umferðir í röð, þar á meðal eina þrátt fyrir að leikmaður X10, Nutchapon „sScary“ Matarat felldi fjóra leikmenn Fnatic einsamall. Útlitið var svart fyrir X10 og geta þeir verið stoltir af því að hafa barist til enda, en þeir náðu að púsla saman einhverjum sex umferðum áður en Fnatic loks lokaði leiknum, 13-9.

Með því er X10 Esports dottið úr mótinu. Fnatic halda áfram í neðri riðli og mæta Version1 í dag klukkan 15 og fá þar tækifæri til að hefna „samsvæðinga“ sinna, evrópska liðinu Team Liquid sem tapaði gegn Version1 á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka