Suðurkóreska liðið NUTURN Gaming sigraði norðurameríska liðið Version1 í fyrstu viðureign Masters Reykjavík í gær. Var það jafnframt jafnasta viðureign mótsins hingað til en þetta var í fyrsta skiptið á mótinu sem tveir leikir í einni viðureign fóru í framlengingu. Spár voru skiptar um hvort lið myndi vinna en NUTURN hefði kannski mátt teljast örlítið líklegra til sigurs þegar viðureignin hófst.
NUTURN Gaming komu inn á mótið eftir að hafa unnið Vision Strikers í Suður-Kóreu undankeppninni, en Vision Strikers eru sigursælasta lið í Valorant, og er því mikil pressa á þeim að standa sig vel. Þeir byrjuðu á ákveðinn hátt ágætlega með því að vinna brasilíska liðið Sharks Esports sem eru þekktir fyrir að vera góðar skyttur – eitthvað sem búið var að draga í efa að Suðurkóreumennirnir væru. Sá sigur var þó 2-1 og þegar rýnt er í frammistöðu þeirra er hægt að gera ýmsar athugasemdir. Það var því alls óvíst hversu vel liðið myndi standa sig í raun þegar viðureignin hófst í gær.
Version1 mætti sömuleiðis inn á móti með mörg augu á sér en þeir komust inn á mótið framar liðum eins og 100 Thieves og Team Envy í Norður-Ameríku undankeppninni. Þeir sýndu hins vegar heiminum að þeir ættu heima á mótinu þegar þeir sendu Team Liquid niður í neðri riðil í annarri viðureign sinni á mótinu. Þeir voru því búnir að sýna að þeir væru líklegri til alls.
Segja má að viðureignin hafi byrjað á enn annarri athugasemd við NUTURN Gaming, en þeir byrjuðu á því að banna borðið Icebox við borðaval og gáfu Version1 því tækifæri til að velja borðið Haven sem NUTURN höfðu tapað illa í gegn Sharks Esports.
Version1 virtust alveg hafa unnið sína heimavinnu því þeir bönnuðu líka borðið Bind þar sem NUTURN standa vel að vígi. NUTURN völdu svo borðið Ascent, en Version1 höfðu unnið bæði Crazy Raccoon og Team Liquid á því borði. Í fljótu bragði mátti því liggur við halda að NUTURN vildu ekki einu sinni vinna þessa viðureign. Lokaborð yrði Split.
Fyrsta leikur viðureignarinnar var í borðavali Version1, Haven, og er óþarfi að eyða of mörgum orðum í þann leik en hann endaði fyrirsjáanlega með 13-3 sigri Version1. NUTURN Gaming hefðu eflaust náð fleiri umferðum ef minna hefði verið um kjánaleg mistök og vafasamar ákvarðanir hjá þeim en þrátt fyrir það geta þeir engum nema sjálfum sér um kennt fyrir tapið í fyrsta leik: héðan í frá hreinlega verða þeir að banna borðið Haven.
Næsti leikur var í borðavali NUTURN, Ascent, og gátu aðdáendur liðsins vonað að hér yrði sami viðsnúningur og hafði verið í viðureign liðsins gegn Sharks Esports. Version1 hins vegar sýndu sömu frammistöðu og þeir gerðu gegn bæði Crazy Raccoon og Team Liquid og var leikurinn blóðug barátta sem teygði sig inn í framlengingu.
NUTURN héldu áfram að spila illa og ætluðu eflaust margir að hárreyta sig þegar leikmaður NUTURN, Kim „Lakia“ Jong-min, tók skrítnasta stökk sem sögur fara af í 23. Umferð leiksins, beint í fangið á tveimur leikmönnum Version1. Það endaði hins vegar á því að virka á einhvern óútskýranlegan hátt og breyttist því á einni sekúndu frá því að vera lélegasta spilun mótsins í það atvik sem eflaust flestir munu muna eftir þegar mótinu líkur. Það var þó ekki nóg til að draga vind úr seglum Version1 og héldu þeir áfram að berjast þar til NUTURN loksins höfðu betur, 15-13.
Þriðji leikur var þá í borðinu Split. Á þessum tímapunkti var búist við því að Version1 myndi missa allan móð, eins og Team Liquid hafði gert gegn Version1 fyrr á mótinu. Svo var ekki og fór þessi þriðji leikur einnig í framlengingu áður en NUTURN loksins náði að loka honum 14-12. Með því var Version1 dottið niður í neðri riðil þar sem þeir fá annað tækifæri til að kenna Evrópu lexíu, í þetta sinn gegn Fnatic, á meðan NUTURN Gaming fá nú að takast á við risann Sentinels í efri riðli.